Vistvænar samgöngur

Við hönnun hverfisins er horft til þess að í Arnarlandi verði greitt aðgengi að fjölbreyttum samgöngum með aukna áherslu á vistvænar samgöngur. Eins er lögð áhersla á að tryggja öruggar umferðartengingar fyrir akandi.

Gatnanet og bílastæði

Meginaðkoma akandi í Arnarland verður um nýja gatnatengingu við Fífuhvammsveg til móts við Arnarsmára. Gert er ráð fyrir innanbæjartengingu við Akrahverfið um ný undirgöng undir Arnarnesveg í samræmi við gildandi aðalskipulag Garðabæjar og deiliskipulag Akra. Alla jafna er gert ráð fyrir bílastæðum í bílakjallara bæði undir íbúðabyggð og atvinnustarfsemi. Norðan við heilsuklasa er sömuleiðis gert ráð fyrir bílastæðahúsi sem skal vera hannað þannig að unnt sé að breyta notkun þess breytist þörf fyrir fjölda bílastæða í framtíðinni.

Almenningssamgöngur

Skipulagið gerir ráð fyrir rými fyrir almenningssamgöngur (Borgarlínu) innan skipulagssvæðisins. Blönduð þétt byggð á svæðinu styður við forsendur þess að Borgarlínan gangi gegnum Arnarland um leið og lega hennar og stopp við miðlægt torg styrkir grundvöll fjölbreyttrar verslunar og þjónustu á svæðinu. Nánar er fjallað um valkosti á legu Borgarlínu um svæðið í umhverfismatsskýrslu deiliskipulagsins. Í endurskoðuðu leiðarneti Strætó er gert ráð fyrir því að strætó aki eftir Fífuhvammsvegi.

Stígakerfi

Í Arnarlandi er gert ráð fyrir þéttu neti fjölbreyttra stíga sem tengja hverfið við nærliggjandi stígakerfi, þjónustu og náttúrusvæði. Hjólastígur liggur samsíða almenningssamgönguleið gegnum hverfið. Auk hefðbundinna gangstétta meðfram götum er gert ráð fyrir náttúrustíg í grænum borða og virknistígur hlykkjast um græna borðann og heilsuklasa. Lögð verður áhersla á gott aðgengi að öruggum hjólastæðum og geymslum á svæðinu.