Nýtt hverfi miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu

Hverfið er mótað í samræmi við fyrirliggjandi stefnur og áætlanir m.a. um samþættingu skipulags byggðar og samgangna, þróun þéttbýlis á höfuðborgarsvæðinu, uppbyggingu á samgöngu- og þróunarás og þéttingu byggðar. Þá er uppbygging í Arnarlandi einnig í samræmi við stefnu Garðabæjar um hagkvæma uppbyggingu íbúahverfa þar sem hugað er að heilnæmu umhverfi, góðum samgöngum og fjölgun lóða undir íbúðabyggð. Í Arnarlandi er lögð áhersla á nærþjónustu og fjölbreytta starfsemi svo úr verði umhverfi sem styður við aukin lífsgæði jafnt fyrir íbúa hverfisins sem og nágranna.

Skipulagsferlið

Vor 2022

Skipulagslýsing

Skipulagslýsing kynnt og sjónarmið til hliðsjónar við mótun vinnslutillögu

Vor 2022

Samráð við mótun tillögu

Vinnustofa með fulltrúum Garðabæjar, Kópavogs, Vegagerðarinnar og Borgarlínu

Sumar 2023

Forkynning - tillaga í vinnslu

Tillaga auglýst, íbúafundur, kalllað eftir ábendingum og innleggi

Haust 2023

Vinna við deiliskipulagstillögu

Ábendingar úr samráði hafðar til hliðsjónar

Sumar 2024

Fullmótuð tillaga kynnt

Tillaga auglýst

Haust 2024

Unnið úr ábendingum

Tillaga fullmótuð. Öllum ábendingum / athugasemdum svarað

Haust 2024

Samþykktarferli

Skipulagstillaga lögð fram til samþykktar

Staðhættir

Skipulagssvæðið er um 9 hektarar að stærð og er staðsett miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu. Svæðið afmarkast af Hafnarfjarðarvegi til vesturs, Arnarnesvegi til suðurs, Fífuhvammsvegi til austurs og sveitarfélagsmörkum Garðabæjar og Kópavogs til norðurs. Við svæðið liggja m.a. núverandi stofnleiðir hjólreiða og öflugt stíganet sem býður upp á góðar tengingar við nálæga þjónustu, útivistarsvæði, grænan borða og strandlengjuna. Margvísleg þjónusta og samfélagslegir innviðir eru í nærumhverfinu, stutt er t.a.m. í Fjölbrautaskólann í Garðabæ, söfn, sund, Smáralind, dagvöruverslun, bakarí, líkamsrækt og fleira.

Samráð og þróun skipulagstillögu

Frá því vinna við skipulag hverfisins hófst í febrúar 2022 hefur verið lagt upp með að eiga gott samráð við umsagnar- og hagsmunaaðila. Vinnustofa var haldin með fjölbreyttum hagsmunaaðilum, tveir opnir íbúafundir voru haldnir sumarið 2023 og fjöldi funda var með fulltrúum frá Kópavogsbæ, Vegagerðinni, Strætó og teymi Borgarlínu. Fjöldi ábendinga og umsagna barst á kynningarstigi sem höfðu mótandi áhrif á þróun skipulagsins.

Helstu breytingar á tillögu frá forkynningu eru:

  • Möguleg lega Borgarlínu undir Arnarnesveg færð til vesturs að mislægum gatnamótum Arnarnesvegar og Hafnarfjarðarvegar
  • Umfang heilsuklasa næst Hafnarfjarðarvegi endurskoðað, m.a. með tilliti til ásýndar, skuggavarps og áhrifa vinds
  • Hámarkshæð kennileitisbyggingar lækkuð úr 9 hæðum í 8 hæðir og salarhæð lækkuð
  • Auk þess voru unnar greiningar á hljóðvist, umferð og áhrifum uppbyggingar á vind o.fl. sem höfðu mótandi áhrif á tillöguna

Umfang heilsuklasa

Gert er ráð fyrir heilsuklasa, u.þ.b. 32.000m2 skrifstofu-, verslunar og þjónustu byggingu með áherslu á heilsutengda starfsemi. Í skipulagsferlinu var umfang heilsuklasa endurskoðað m.t.t. ábendinga íbúa í nærumhverfinu. Unnar voru vindgreiningar, sólarstundagreiningar og greiningar á umfangi til þess að meta áhrif uppbyggingar. Einnig var staðsetning á byggingu í landi endurskoðuð samhliða viðmiðum fyrir hæðarsetningu Borgarlínu. Hér til hliðar má sjá skýringarmynd sem sýnir þá umbreytingu sem hefur orðið á umfangi heilsuklasa í frá því að tillagan var forkynnt sumarið 2023. Rauð lína sýnir umfang heilsuklasa samkvæmt tillögu til forkynningar.

Möguleg lega Borgarlínu um/við Arnarland

Hönnun á legu Borgarlínu um Hafnarfjarðarveg er ekki hafin og því er ekki vitað með vissu hver lega hennar verður. Við skipulag hverfisins var tekið mið af þeirri óvissu og lögð áhersla á að halda fjölbreyttum möguleikum opnum. Í skipulagi Arnarlands er tekið frá pláss svo að Borgarlínan geti gengið gegnum svæðið þar sem sá valkostur er talin skila betri þjónustu og nærumhverfi sem styður við aukinn farþegagrunn. Í samráðsferli samhliða mótun deiliskipulags Arnarlands var tekið tillit til ábendinga íbúa í nærumhverfinu og í uppfærðri tillögu er lega Borgarlínu sýnd þannig að hún geti farið um Arnarnesveg á/við mislæg gatnamóta Arnarnesvegar og Hafnarfjarðarvegar í stað þess að fara um fyrirhuguð undirgöng við Hofakur. Hins vegar verður endanleg ákvörðun um legu Borgarlínu tekin af skrifstofu Borgarlínu í samráði við Garðabæ og Kópavog og fellur því ekki undir skipulag Arnarlands.