Náttúran í borgarumhverfinu

Lögð verður áhersla á gott aðgengi að fjölbreyttum útvistar- og grænum svæðum bæði innan hverfisins og í nærumhverfinu.

Græni borðinn

Grænn borði liggur um svæðið frá suðri til norðurs og tengist m.a. nýrri stígatengingu undir Arnarnesveg. Græni borðinn gegnir margþættu hlutverki bæði fyrir gróður og náttúru en einnig samfélag og lýðheilsu. Borðinn snýr vel við sólu, við hann tengjast fjölbreytt dvalar- og hreyfisvæði og innan hans er gert ráð fyrir blágrænum ofanvatnslausnum.

Blágrænar ofanvatnslausnir

Á svæðinu er gert ráð fyrir blágrænum ofanvatnslausnum. Tilgangur þeirra er margþættur en meðal annars hægja þær á rennsli ofanvatns og létta þannig á veitukerfinu og draga úr flóðahættu. Auk þess styðja blágrænar ofanvatnslausnir við líffræðilegan fjölbreytileika, gleðja augað og auðga umhverfið og stuðla að sjálfbærum vatnsbúskap í heild. Meðal lausna sem notast verður við í Arnarlandi eru gróðurþök, regnbeð, regnvatnsrásir og settjörn á svæðinu. Þannig verður reynt eftir fremsta megni að meðhöndla það ofanvatn sem fellur til á svæðinu innan þess.

Líffræðilegur fjölbreytileiki

Eftir því sem þétting byggðar eykst verður mikilvægara að huga að líffræðilegum fjölbreytileika því hann er nauðsynlegur fyrir vellíðan fólks og samfélaga. Á svæðinu verður stutt við líffræðilegan fjölbreytileika með grænum geira, gróðri í inngörðum, grænum þökum og blágrænum ofanvatnslausnum. Allt er þetta hluti af því að viðhalda, bæta við og styrkja vistkerfi plantna, dýra og manna sem og að bæta upplifun og vellíðan fólks.