Byggðarmynstur

Gert er ráð fyrir að í Arnarlandi rísi borgarumhverfi með lifandi starfsemi og góðum íbúðum miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu.

Íbúðabyggð

Íbúðabyggð í Arnarlandi mun aðlaga sig að hæð, landhalla og byggðamynstri nærliggjandi fjölbýlishúsabyggðar í Garðabæ og Kópavogi. Hæðir íbúðabyggðar verða 3-5 en einstaka byggingar 6 hæðir, er það m.a. til þess að styrkja tengsl milli notkunar innan bygginga og mannlífs í göturými, torgum og inngörðum. Mismunandi hæðir eru nýttar til þess að opna á sólarljós í inngörðum, íbúðum og opna á sjónása milli bygginga. Uppbrot bygginga býður upp á tækifæri fyrir þakgarða og þaksvalir.

Blönduð starfsemi

Næst Hafnarfjarðarvegi er gert ráð fyrir blandaðri starfsemi, s.s. skrifstofuhúsnæði, þjónustu og verslun, í góðum tengslum við almenningssamgöngur. Vestan við samgönguás er gert ráð fyrir kennileitisbyggingu heilsuklasa, u.þ.b. 40.000m2. Byggingin samanstendur af þremur misháum kjörnum sem eru tengdir saman með tveggja til þriggja hæða lágbyggingu.  Þetta er gert til þess að brjóta upp byggingarmassann og opna á sjónása. Stefnt er að því að í heilsuklasa verði í boðifjölbreytt þjónusta, sem m.a. nýtist nærumhverfinu, með áherslu á fyrirtæki í heilsugeira og með heilsutengda þjónustu. Austan við samgönguásinn er gert ráð fyrir verslun og/eða þjónustu á jarðhæðum en íbúðum á efri hæðum.

Virkar framhliðar

Sérstök áhersla verður lögð á tengsl milli starfsemi og notkunar á jarðhæðum og mannlífs á götum úti, m.a. til þess að stuðla að líflegu umhverfi og styðja við virkan lífsstíl. Á svæðinu er gert ráð fyrir verslun og þjónustu, á borð við matvöruverslun, hársnyrtistofu, fatahreinsun, snyrtistofu, apóteki og sjúkraþjálfun.